Gummi og Sammi heiðraðir
- skotgrundmot

- 5 days ago
- 2 min read
Á gamlársdag voru þeir Samúel Pétur Birgisson og Guðmundur Reynisson heiðraðir af Grundarfjarðarbæ fyrir störf í þágu íþrótta- og tómstundamála í Grundarfirði, en þeir hafa báðir verið öflugir sjálfboðaliðar Skotfélags Snæfellsness. Við erum ótrúlega þakklát fyrir þeirra störf og við óskum þeim til hamingju með þessa viðurkenningu.

Guðmundur Reynisson t.v. og Samúel Pétur Birgisson t.h.
Gummi Reynis er einn af tryggustu félagsmönnum Skotfélags Snæfellsness. Hann hefur verið í félaginu lengi og er alltaf mættur þegar á þarf að halda og oft er hann kominn í verkin óumbeðinn. Hann hefur tekið virkan þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað hjá félaginu undanfarin ár og hann er alltaf mættur með fyrstu mönnum þegar lyfta þarf hamri. Þegar skotmót eru haldin þá er hann alltaf tilbúinn að græja og gera eða standa við grillið. Að mótum loknum þá er hann síðastur til þess að yfirgefa svæðið þegar öllum frágangi er lokið. Gumma er annt um æfingasvæði félagsins og í frítíma sínum fer hann eftirlitsferðir inn á svæði til þess að líta eftir æfingasvæðinu og eigum félagsins. Þá hefur hann einnig komið að fjáröflun fyrir félagið og hefur m.a. safnað saman gosdósum sem hann fer með endurvinnslu og leggur innkomuna inn á reikning félagsins. Það er ómetanlegt að eiga sjálfboðaliði eins og Gumma. Takk fyrir allt Gummi.
Samúel Pétur er einn virkasti félagsmaður Skotfélags Snæfellsness. Þrátt fyrir ungan aldur þá hefur Sammi verið einn virkasti maður félagsins í yfir áratug. Sammi byrjaði ungur í félaginu og hefur alla tíð verið liðtækur, hvort sem það sé vinnudagur, mótahald, skotvopnasýning eða annað. Hann er alltaf tilbúinn að leggja á sig ómælda vinnu fyrir félagið og félagið er honum afar kært. Samúel hefur komið að og tekið þátt í skipulagningu fjölda skotvopnasýninga, skotvopnanámskeiða, skotprófa og þá er hann einnig í stjórn félagsins. Hann mætir á alla þá vinnudaga og fundi sem hann á kost á að mæta á og er alltaf tilbúinn að standa vaktina þegar það eru mót eða aðrir viðburðir. Samúel er öðrum félagsmönnum góð fyrirmynd og mun án efa vera lykilmaður í starfi félagsins í framtíðinni. Takk fyrir allt Sammi.








Comments