top of page
Gamlar myndir (20).jpg
Gamlar myndir (5).jpg

SAGA FÉLAGSINS

STOFNUN FÉLAGSINS

Skotgrund sem er stytting af "Skotfélag Grundarfjarðar og nágrennis" var stofnað af skotáhugamönnum í Grundarfirði á haustdögum árið 1987.  Upphaflega hét félagið "Skotveiðifélag Grundarfjarðar" en var síðar breytt í Skotfélag Grundarfjarðar".

Hugmyndina að stofnun félagsins átti Þorsteinn Björgvinsson, sem oftast er kallaður "Steini gun".  Á þeim tíma var hann að vinna í Sæfang hf. ásamt þeim Unnsteini Guðmundssyni og Reyni Ragnarssyni og fengu þeir Birgi Guðmundsson og fleiri öfluga menn í lið með sér og skipulögðu undirbúningsfund fyrir formlegan stofnfund.

Steini hafði lagt mikla vinnu á sig við að afla gagna og upplýsinga frá mönnum sem voru í fræðslunefnd Skotvís í Reykjavík svo rétt yrði staðið að stofnun félagsins.  Það var fyrir tilstilli Sölva Jóhannssonar að Steini komst í samband við Sverri Scheving Torsteinsson jarðfræðing hjá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins, en Sölvi og Sverrir voru þá báðir í fræðslunefnd Skotvís og einnig veiðifélagar.  Þeir aðstoðuðu Steina og í beinu framhaldi voru lögð drög að inngöngu Skotgrund í Skotvís.

KYNNINGARFUNDUR FYRIR STOFNFUND

Kynningarfundur fyrir formlegan stofnfund var haldinn í Grundarfirði þann 26. september 1987 og mættu fjórir fulltrúar Fræðslunefndar Skotvís hingað vestur til að sitja fundinn, en það voru þeir Sölvi Jóhannsson, Sverrir Scheving, Bragi Melax og Hallgrímur Marinósson.   Fundurinn var haldinn í kaffistofu Sæfangs hf. og var tekið vel á moti gestunum með flottum veitingum.  Aðrir fundarmenn sem sátu fundinn voru: Aðalsteinn Friðfinnsson, Árney Huld Guðmundsdóttir, Birgir Guðmundsson, Bjarki Aðalsteinsson, Geirmundur Vilhjálmsson, Gísli Magnússon, Guðbjörg Elín Friðfinnsdóttir, Hermann Gíslason, Jóhannes K. Jóhannesson, Ómar B. Elísson, Reynir Ragnarsson, Unnsteinn Guðmundsson, Vilhjálmur Pétursson, Þorsteinn Björgvinsson, Þorsteinn H., Þórður Eggert Viðarsson og Þráinn Nóason.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

STOFNFUNDUR

Stofnfundurinn var haldinn í skólastofu Barnaskólans í Grundarfirði þann 10. október sama ár kl. 20:00.  Fundarmenn sem sátu stofnfundinn voru: Árney Huld Guðmundsdóttir, Birgir Guðmundsson, Geirmundur Vilhjálmsson, Gísli Magnússon, Hlynur Harðarson, Jóhannes Jóhannesson, Kristján Kristjánsson, Ólafur Hjálmarsson, Ólafur Pétursson, Ómar B. Elísson, Páll Guðmundsson, Reynir Ragnarsson, Runólfur Guðmundsson, Þorsteinn Björgvinsson, Þórður Eggert Viðarsson og Þráinn Nóason. 

Jafnframt sátu stofnfundinn fulltrúar Skotveiðifélags Íslands, en Skotveiðifélag Grundarfjarðar var að gerast aðili að Skotveiðifélagi Íslands samhliða stofnun félagsins.  Á stofnfundinum var fyrsta stjórn félagsins kosin.  Þorsteinn Björgvinsson formaður, Birgir Guðmundsson varaformaður, Geirmundur Vilhjálmsson ritari, Ómar B. Elísson gjaldkeri, Gunnar Kristjánsson meðstjórnandi, Ólafur Hjálmarsson varamaður og Sævar Guðmundsson varamaður.  Við stofnun félagsins voru félagsmenn 46 talsins.

FYRSTI STJÓRNARFUNDURINN

Fyrsti stjórnarfundur félagsins var haldinn þann 25. otóber 1987 og rætt var um umsókn til Hreppsnefndar Eyrarsveitar um aðstöðu til skotæfinga fyrir félagið í Hrafnkelsstaðabotni.  Markmið með stofnun félagsins var "að stuðla að góðri meðferð skotvopna í víðasta skilningi þess orðs".  Til þess að ná því markmiði "þarf félagið að hafa aðgang að skotæfingasvæði", segir í bréfi stjórnarinnar til Hreppsnefndar Eyrarsveitar, dagsett í október 1987.  Einnig var rætt um á þessum fyrsta stjórnarfundi félagsins nauðsyn þess að boða til aðalfundar fljótlega eftir áramótin til að fjalla um lög félagsins, merki, skírteini og fleiri mál.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

FYRSTI AÐALFUNDUR FÉLAGSINS

Boðað var til fyrsta aðalfundar félagsins sunnudaginn 24. apríl 1988 í Grunnskóla Eyrarsveitar kl. 13:30.  Dagskrá aðalfundarins var eftirfarandi: 1) Lög félagsins lög fram  2) Ákvörðun um félagsgjöld   3) Merki félagsins og skírteini   4) Önnur mál      Sextán félagsmenn mættu á fundinn og voru lög félagsins samþykkt einróma.

Ákveðið var að árgjöld yrðu 1.500 kr. og þar af renni 500 kr. til Skotvís.  Þó var ákveðin sú undantekning að hjón greiði eitt og hálft gjald eða 2.250 kr. og þar af renni 1.000 kr. til Skotvís.  Lagður var fram uppdráttur af fyrirhuguðum framkvæmdum á skotsvæðinu og var hann samþykktur einróma.  Stjórn félagsins var síðan endurkjörin óbreytt fyrir næsta starfsár.  Félagatal Skotgrundar hafði þegar verið sent til Skotvís og voru félagsmenn 49 þegar þarna var komið við sögu.

UPPBYGGING ÆFINGASVÆÐIS

Þann 22. desember 1988 var undirritaður leigusamningur við Hreppsnefdn Eyrarsveitar um leigu á 67.500 m2 svæði í Hrafnkelsstaðabotni til uppbyggingar á skotæfingasvæði.  Samningurinn var fyrst til eins árs, en var síðan framlengdur til 20 ára.  Árið 2006 var leigusamningurinn undirritaður í þriðja sinn og aftur til 20 ára.  Sá samningur átti að gilda til ársins 2026.  Hann hefur nú verið endurnýjaður í fjörða sinn.

Fljótlega hófst uppbygging á svæðinu, en öll vinna á svæðinu var unnin í sjálfboðavinnu.  Steypt voru niður fjögur riffilborð og settar voru upp grindur fyrir skotmörk á 100m færi.  Einnig voru smíðaðar grindur til að setja upp á 200m en uppsetning á þeim tafðist. 

Riffilsvæðið var formlega tekið í notkun með samskoti þeirra Birgis Guðmundssonar og Geirmundar Vilhjálmssonar eftir niðurtalningu frá 10, að vistöddum fjölda fólks.  Skotið var úr tveimur gömlum herrifflum sem eru í eigu Birgis, en þeir eru af tegundinni Lee Enfield 303 British og belgískum Mauser 7,62.

Leirdúfuvöllurinn var byggður upp norðan við riffilborðin.  Keyra þurfti mikið magn af efni úr Hrafnánni til að móta völlinn.  Sæfang HF. (í dag Grun hf.) lánaði vörubíl til verksins og Ólafur Guðmundsson sem átti steypustöðina í Grundarfirði lánaði gröfu.  Ólafur gaf síðan Steina gun alla þá steypu sem til þurfti, sem Steini gaf síðan áfram til félagsins.

Félagið festi kaup á notuðum kastvélum frá Skotreyn á vordögum árið 1990.  Þær voru af gerðinni Danlac, en fyrir þær greiddi félagið 250.000 kr.  Kaup á vélunum og búnaði voru fjármögnuð með sölu á svartfugli, en félagið fékk netaveiddan svartfugl frá Ólafsvík, sem félagsmenn Skotgrundar gerðu að.  Þetta var gríðarlega mikið magna af fugli eða um 1.700 fuglar og fékk félagið aðstöðu í Kaupfélaginu hjá Aðalsteini Friðfinnssyni (Alla Finna) til að gera að fuglinum.

Húsin utan um kastvélarnar voru smíðuð að hluta til í Grundarfirði og síðan flutt inn í Hrafnkelsstaðabotn þar sem lokið var við smíðin.  Timbur í húsin höfðu félagsmenn fengið fyrir lítið hjá versluninni Hömrum í Grundarfirði.

Félagið fékk gefins gamla ljósavél ur Grundfirðingi SH-12 til að nota sem aflgjafa fyrir kastvélarnar, en vélin var 56 hö og af gerðinni Buck.  Henni átti að henda en Steini gun hafði samband við Soffanías Cecilsson hf. sem gaf honum vélina og Steini tók það að sér að laga hana og gera han nothæfa.

 

 

 

 

SKOTVOPNASÝNING

Skotveiðifélagið Skotgrund eins og það hét í þá daga stóð fyrir skotvopnasýningu þann 9. september árið 1989 þar sem gestum og gangandi var boðið að skoða og fræðst um skotvopn.  Til sýnis voru skotvopn úr einkaeigu félagsmanna og boðið var upp á léttar veitingar.  Í seinni tíð hefur félagið haldið fleiri skotvopnasýningar og þá oft í tengingu við bæjarhátíðir hér á Snæfellsnesi.  Sýningarnar hafa verið mjög vel sóttar og hafa verið mikil upplifun bæði fyrir gesti- og skipuleggjendur sýninganna.

 

 

 

HEIÐURSFÉLAGI NR. 1

Árið 1997 eða á 10 ára afmælisári félagsins var Þorsteinn Björgvinsson gerður að heiðursfélaga, en "Steini gun" eins og hann oftast er kallaður var eins og fram hefur komið einn af stofnendum félagsins.  Þetta var ákveðið á stjórnarfundi þann 8. október 1997 með samþykki allra stjórnarmanna.

MERKI FÉLAGSINS

Merki félagsins var hannað árið 1988 og lagt fram til samþykktar á aðalfundi félagsins þann 21. júní sama ár.  Merkið hannaði Helga Stolzenvald frá Grundarfirði, en Helga var eiginkona Steina gun.  Samþykkt var samhljóða að merkið yrði tekið í notkun, en fram til þessa hafði Skotgrund notast við merki Skotvís.

Innblástur í merkið er sóttur úr okkar nánasta umhverfi, dýraríkinu og meginstarfsemi félasins sem er skotfimi.  Grunnur merkisins táknar riffilsjónauka sem horft er í gegnum út friðsælan Grundarfjörðinn.  Upp úr sjónum rís Kirkjufell sem er mikilfenglegt fjall og jafnframt staðartákn Grundarfjarðarbæjar.  Um fjörðinn flýgur lítill gæsahópur og í jaðri merkisins má sjá tvær stokkendur í aðflugi.  Neðarlega í merkinu er hreindýrshorn með áletrunina "Stofnað 10. okt 1987", en eins og áður hefur komið fram var félagið stofnað þann dag.

Í þá daga hét félagið Skotveiðifélag Grundarfjarðar, en á sama aðalfundi og merkið var tekið í notkun (21. júní 1998) var nafni félagsins breytt í Skotfélag Grundarfjarðar.  Í dag starfar félagið sem viðurkennt íþróttafélag innan ÍSÍ og tengir merkið saman fyrrum starfsemi félasins sem veiðifélag og núverandi starfsemi sem íþróttafélag með áherslu á skotfimi.

Helstu greinar sem stundaðar eru hjá félaginu eru riffilskotfimi og haglabyssuskotfimi, en sjá má slík skotvopn neðst í merkinu.  Riffillin sem  bendir til hægri er af tegundinni Rmmington 700 ADL og haglabyssan sem bendir til vinstri er af tegundinni Remington 1187.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

AÐILDARUMSÓKN AÐ HSH OG ÍSÍ

Vorið 2000 var undirbúningsvinna fyrir inngöngu í HSH hafin og aðildarinnsókn send inn.  Í kjölfarið eða nánar tiltekið þann 29. mars árið 2001 var ákveðið að send yrði inn umsókn um inngöngu í Skotsamband Íslands.  Það var svo á vordögum árið 2002 sem félagið fékk inngöngu og var því orðið viðurkennt íþróttafélag innan ÍSÍ.  Skogrund varð aðili að HSH í október árið 2003 og hefur starfað undir merkjum þess síðan.

FÉLAGSHÚSNÆÐI

Lengi hafði verið rætt um það að félagiði þyrfti að koma upp félagshúsnæði á æfingasvæði félagsins.  Teiknaðar höfðu verið upp hugmyndir að hentugu húsnæði og það var svo í mars árið 2000 að undirbúningsvinna fyrir byggingu félagshúsnæðis hófst af alvöru.  Farið var í það að kanna hvaða leyfi þyrfti til og hver kostnaðurinn yrði við byggingu þess. 

Hugmyndin var að byggja um 40 m2 húsnæði á svæðinu, en fljótlega var það útséð að það yrði of kostnaðarsamt að byggja hús.  Því var farið í það að leita að tilbúnu húsnæði sem hægt væri að flytja á svæðið.

Á stjórnarfundi þann 2. október árið 2001 var borin upp sú hugmynd að skoða 20 m2 húsnæði frá Búlandshöfða, sem áður hafði hýst Búlandskaffi.  Ákveðið var að skoða þann möguleika en einnig var húsnæði frá Vatnabúðum skoðað og fleiri möguleikar.

Húsið á Búlandshöfða þótti álitlegasti kosturinn og gengið var frá kaupum á því í desember sama ár.  Í fundargerðum frá þessum tíma kemur fram að húsið hafi verið "ljótt en ófúið", en fyrir húsið greiddi Skotgrund 200.000 kr. 

 

Það var svo í maí árið eftir sem  húsið var flutt inn í Hrafnkelsstaðabotn og sett niður þar sem það er nú.  Þorgeir Árnason frá Rifi var fenginn til að flytja húsið, en kostnaður við flutninginn og uppsetningu á undirstöðum var samtals 280.000 kr.

Húsið þarfnaðist töluverðra endurbóta, en klæða þurfti það að innan og utan, skipta um járn á þaki og margt fleira.  Það var ekki fyrr en árin 2006 og 2007 sem húsið var tekið í gegn að innan og raflagnir lagðar.  Félagshúsnæðið var svo formlega tekið í notkun þann 13. maí 2006 og við það tilefni kom hópur fólks saman til að skjóta og borða léttar veitingar.

 

 

 

HEIMASÍÐA

Fyrsta heimasíða félagsins var sett á laggirnar í maí árið 2002.  Síðan þá er búið að prófa nokkrar útfærslur af henni og hýsa hana á nokkrum mismunandi stöðum.  Það var svo á aðalfundi félagsins árið 2007 sem ákveðið var að taka í notkun nýja heimasíðu undir léninu www.skotgrund.123.is.  Hún var í stöðugum uppfærslum og endurbótum og fjöldi fólks heimsótti síðuna dag hvern.  Þar var hægt að finna allar helstu upplýsingar um starfsemi félagsins og viðburðir voru auglýstir.  Það var svo þann 1. janúar árið 2021 sem þessi heimasíða var tekin í notkun undir léninu skotgrund.is, en undirbúningur og smíði hennar hafði tekið um 2 ár.

NÝ LJÓSAVÉL

Í maí árið 2007 var keypt ný ljósavél sem leysa átti gömlu ljósavélina af hólmi, sem þjónað hafði félaginu frá stofnun þess.  Félagið hafði fengið 200.000 kr. styrk úr Íþróttasjóði Menntamálaráðuneytisins og 100.000 kr. styrk frá Grundarfjarðarbæ til að byggja skýli yfir riffilborðin.  Styrkumsókninni var síðar breytt í umsókn um  styrk til vélarkaupa og fékkst það samþykkt.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

RIFFILBORÐIN ENDURNÝJUÐ

Haustið 2005 var hafist handa við að endurnýja riffilborðin.  Upprunalegu riffilborðin sem smíðuð voru úr timbri voru farin að láta verulega á sjá og því var ákveðið að endurnýja borðin.  Að þessu sinni var ákveðið að hanna steypumót og steypa borðplötur í stað þess að nota timbur.  Vorið 2006 voru fyrstu tvær borðplöturnar steyptar niður á undirstöðurnar frá gömlu riffilborðunum. 

Tveimur árum síðar eða sumarið 2008 voru steyptar niður tvær borðplötur til viðbótar og þá var búið að endurnýja öll gömlu borðin.  Það var svo árið 2012 sem ákveðið var að fjölga borðunum úr 4 í 6. Stéttin undir borðunum var lengd í báða enda og steypt voru 2 riffilborð til viðbótar.  Hafist var handa við að grafa fyrir stéttinni í maí 2012 og var hún steypt í júní.  Það var svo í október sama ár sem borðin voru steypt niður, en þau voru formlega tekin í notkun á 25 ára afmæli félgsins sem haldið var upp á þann 20. október 2012.

RIFFILBRAUTIN BÆTT

Upprunalega voru smíðaðir tveir 6 metra breiðir riffilbattar fyrir 100m og 200m fjarlægð.  Þeir voru smíðaðir árið 1988 og steyptar voru niður undirstöður fyrir þá.  100m battinn hefur verið í mikilli notkun, en það dróst að ljúka við uppsetningu á 200m battanum.  Það var ekki fyrr en í maí árið 2008 sem hann var settur upp, en þá var battinn á 100m endurnýjaður um leið því það var mikið farið að sjá á honum eftir rúmlega 20 ára notkun.

Aðsóknin á riffilsvæðið jókst jafnt og þétt með bættri aðstöðu og vorið 2012 var ákveðið að bæta riffilaðstöðuna enn frekar.  Steyptar voru undirstöðu fyri færanlega riffilbatta á 25m, 50m, og 75m til að auka fjölbreytnina.  Undirstöðurnar voru steyptar í júní 2012 og Vélsmiðjan Berg smíðaði fyrir félagið grindur fyrir riffilskotmörk sem teknar voru formlega í notkun á 25 ára afmæli félagsins sama ár.  Riffilbrautin hafði þegar hér var komið við sögu upp á að bjóða 6 öflug riffilborð og skotmörk á 25m, 50m, 75m, 100m og 200m.  Sumarið 2014 var svo bætt við skotmörkum á 300m, 400m og 600m.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

SKOTPRÓF FYRIR HREINDÝRAVEIÐIMENN

Samkvæmt reglugerð sem tók gildi árið 2012 ber hreindýraveiðimöum að standast verklegt skotpróf áður en haldið er til hreindýraveiða.  Slík skotpróf eru þreytt hjá viðurkenndum skotfélögum víðsvegar um landið hjá viðurkenndum prófdómurum sem lokið hafa prófdómaranámskeiði.

Í júní 2013 útskrifuðust fjórir fulltrúar á vegum Skotgrund sem prófdómarar, en það voru þeir Birgir Guðmundsson, Jón Einar Rafnsson, Jón Pétur Pétursson og Unnsteinn Guðmundson.  Sóttu þeir námskeið á vegum Umhverfisstofnunar sem Gunnar Sigurðsson frá Skotfélagi Reykjavíkur sá um.  Þá gat Skotgrund boðið upp á verkleg skotpróf hér á Snæfellsnesi.  Með þessu vildi Skotgrund koma til móts við þarfir skotmanna á Snæfellsnesi og sérstaklega með það huga að auka enn frekar þjónustu við sína félagsmenn.

RIFFILBRAUTIN LENGD

Þann 27. september 2013 var undirritaður nýr lóðarleigusamningur á milli Skotgrundar og Grundarfjarðarbæjar, sem varðar leigu á landsvæði fyrir skotæfingar í Hrafnkelsstaðabotni.  Nýi samningurinn er til 15 ára og gildir til 30. september 2028.  Með nýja samningnum fékk Skotgrund til afnota stærra landsvæði til skotæfinga þar sem æfingasvæðið var lengt úr 450 m í 1.000 m.

Æfingavæði Skotgrundar var á sínum tíma, í sameiningu við sveitarstjórn, bændur o.fl. valinn gíður staður og er svæðið eitt það besta hér á landi frá náttúrunnar hendi.  Æfingasvæðið er í rísandi landslagi og býður upp á mikla möguleika til áframhaldandi uppbyggingar.  Með nýja lóðarleigusamningnum fékk Skotgrund til afnota 82.500 m2 til viðbótar við þá 67.500 m2 sem félagið var með, eða samtals 150.000 m2.  Það gerir félaginu kleift að tryggja öryggi enn frekar á svæðinu.

 

 

 

 

 

 

 

NAFNI FÉLAGSINS BREYTT ÖÐRU SINNI

Á aðalfundi félagsins þann 8. maí 2014 var samþykkt samhljóða að nafni félagsins yrði breytt öðru sinni í sögul félagsins.  Var nafninu að þessu sinni breytt í "Skotgrund Skotfélag Snæfellsness".  Margt hefur breyst frá því að félagið var stofnað og ekki síst samgöngur.  Með bættum samgöngum hefur orðið meira samstarf milli sveitarfélagsa og félagsmenn Skotgrundar koma nú víða að.  Það þótti því tímabært að breyta nafni félagsins.

MÓTANEFND

Mótanefnd Skotfélags Snæfellsness tók fyrst til starfa árið 2015 en hún er kosin til eins árs í senn.  Hún skal vera skipuð 5 nefndarmönnum og hlutverk hennar er að skipuleggja mót og sjá um framkæmd þeirra.

VALLARNEFND

Vallarnefnd Skotfélags Snæfellsness tók fyrst til starfa árið 2017 en hún er kosin ár hvert á aðalfundi félagsins til eins árs í senn.  Hlutverk vallarnefndar er að sjá um umhirðu á æfingasvæðinu, sjá um innkaup fyrir æfingasvæðið og koma með hugmyndir að frekari uppbyggingu.

HEIÐURSFÉLAGAR NR. 2, 3 OG 4

Á þrítugasta starfsári félagsins voru þrír félagsmenn heiðraðir fyrir störf sín fyrir félagið og gerðir að heiðursfélögum.  Það voru þeir Karl Jóhann Jóhannsson, Birgir Guðmundsson og Unnsteinn Guðmundsson.  Þeir hafa allir verið í félaginu alveg frá upphafi og voru þeir heiðraðir á aðalfundi félagsins sem haldinn var á veitingahúsinu Hraun í Ólafsvík þann 25. maí.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

RIFFILSKOTHÚS BYGGT

Alveg frá því að uppbygging hófst á æfingasvæði félagsins hefur verið rætt um það að byggja skýli yfir riffilborðin.  Þegar fyrstu riffilborðin voru steypt árið 1988 var gert ráð fyrir því að byggt yrði skýli yfir borðin og því voru steyptar niður tunur utan við borðin sem áttu að vera undistöður fyrir skýlið. 

Á aðalfundi félagsins þann 5. maí 2011 báru nokkrir félagsmenn upp það erindi hvort byggja ætti riffilskothús við riffilbrautina.  Það voru skiptar skoðanir um þá hugmynd og voru nokkrir fundarmenn algjörlega andvígir því.  Sögðu þeir að þetta væri óraunhæf hugmynd því slík bygging væri allt of kostnaðarsöm og allt of mikil vinna sem myndi öll lenda á félagsmönnum.  Þá var því einnig haldið fram að vonlaust væri að skjóta úr rifflum inanndyra því blastið væri svo mikið.  Tillagan var því felld og lagt til að frekar yrði skoðaður sá möguleiki að byggja skýli á súlum.  Ekki voru allir sáttir við þá hugmynd heldur þannig að sú tillaga var einnig felld og málið var tekið af dagskrá.

Eftir fundinn fóru sömu félagsmenn og lögðu fram tillögu um byggingu skothúss að kanna kosti og galla slíks húss og höfðu þeir m.a. samband við öll þau skotfélög sem byggt höfðu slík hús á Íslandi.  Áður en langt um leið var byrjað að rissa upp hugmyndir og bera fram tillögur að útfærslu og leita leiða til að fjármagna húsið.

Vorið 2013 var svo farið að ræða það af alvöru innan félagsins að reisa slíkt hús og hófst undirbúningsvinna fyrir húsbygginguna af alvöru síðar sama ár.  Í maí 2014 voru skothús hjá öðrum félögum skoðuð og hönnun hússins hófst fyrir alvöru.  Sveitarstjórnarmönnum voru kynntar huygmyndir félagsins um fyrirhugaða húsbyggingu og fengum við strax jákvæð viðbrögð.

Teiknaðar voru margar útfærslur og hugmyndirnar voru í sífelldri þróun.  Í maí 2016 að sótt var um byggingaleyfi fyrir húsinu, en þá kom í ljós að ekki var hægt að afgreiða málið strax vegna skipulagsmála hjá sveitarfélaginu, en Grundarfjarðarbær á landið og var það í skipulagsferli.  Heimild fyrir húsbyggingu fékkst svo um haustið á undanþágu og tók Þorsteinn Björgvinsson heiðursfélagi félgsins fyrstu skóflustunguna þann 22. febrúar 2017. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það var auð jörð þegar félagsmenn keyrðu inn á svæði til að taka fystu skóflustunguna, en á meðan þeir voru að gera sig klára til að taka fyrstu skóflustunguna byrjaði að snjóa.  Næstu vikurnar var allt á kafi í snjó og því hófst vinna við uppslátt á sökklum ekki fyrr en 8. maí þegar sól var farin að hækka á lofti.  Ákveðið var að félagsmenn myndu gera sem mest sjálfir og byggja húsið eftir efnum svo að félagið þyrfti ekki að skuldsetja sig til þess að framkvæma bygginguna.

Fyrsta steypa var steypt 13. maí, en sökklarnir voru steyptir í 3 hlutum.  Vegna fjölda skotmóta og annarra viðburða það sumarið náðist ekki að klára að steypa gólfplötuna og var hún því ekki steypt fyrr en árið eftir.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á Skírdag árið 2018 eða nánar tiltekið 29. mars komu félgsmenn saman og fylltu inn í grunninn, einangruðu hann, lögðu frárennslislagnir og gerðu allt klárt fyrir steypu á gólfplötunni.  En þá byrjaði aftur að snjóa og á Páskadag var koinn ca. 20-25 cm djúpur jafnfallinn snjór.  Gólfplatan var því ekki steypt fyrr en 15. júní.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ári síðar eða þann 6. júní 2019 var hafist handa við að reisa húsið.  Fjöldi félagsmanna mætti til að hjálpa til og húsið rauk upp á met tíma.  Eftir nokkur vinnukvöld og ómælda sjálfboðaliðavinnu tókst að setja þak á húsið og gera það fokhelt fyrir veturinn.  Sumarið 2020 var svo unnið við að klæða húsið að utan, setja í það skotlúgur og steypa upp skotborð.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

NÝJAR LEIRDÚFUKASTVÉLAR

Sumarið 2020 tók félagið í notkun nýjar leirdúfukastvélar af fullkomnustu gerð.  Þær voru fluttar inn frá Finnlandi og eru af gerðinni Nasta.     Gömlu kastvélarnar voru orðnar mjög slitnar eftir að hafa þjónað félaginu okkar í 32 ár, en þær voru keyptar notaðar frá Skotfélagi Reykjvíkur árið 1988.  Veiðihúsið Sakka sá um innflutning á nýju vélunum fyrir félagið og kostuðu þær á aðra milljón. Félagsmenn höfðu safnað fyrir þeim en einnig fékkst styrkur frá Grundarfjarðarbæ og Íþróttasjóði Menntamálaráðuneytisins.  Vélarnar voru formlega teknar í notkun á árlegu Sjómannadagsmóti félagsins þann 4. júní.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

STARFSEMI FÉLAGSINS Í DAG

Starfsemi félagsins í dag er mjög öflug og rekur félagið glæsilegt æfingasvæði sem sífellt er verið að bæta og laga.  Árlega eru haldin fjöldi skotmóta og fleiri viðburði s.s. skotvopnasýningar, skotvopnanámskeið, konukvöld, unglingakvöld o.fl. ofl.  Félagsmönnum er alltaf að fjölga og er fjöldi félagsmanna nú í sögulegu hámarki.  Árið 2007 voru skráðir félagsmenn 19 en árið 2014 fór fjöldi félagsmann  í fyrsta skipti yfir 100.  Skráðir félagsmenn í lok árs 2020 í kringum 180.

Stjórn félagsins er gríðarlega ánægð með hvað félagið er í miklum blóma og vonandi mun sú þróun halda áfram.  Stjórn félagsins er mjög stórhuga hvað framtíðina varðar, en eitt er víst að án tryggra félagsmanna væri félagið ekki að blómstra.

Við horum björt fram á veginn, hlökkum til að takast á við ný verkefni og bjóðum um leið nýja félagsmenn velkomna í félagið.

q.jpg

Bréfið sem ritað var til Hreppsnefndar Eyrarsveitar

Gamlar myndir (29).jpg

Hér er búið að steypa fyrstu riffilborðin.  Í baksýn má sjá leirdúfuskotvöllinn í smíðum.

 

Frá vinstri:

Hermann Gíslason, Unnsteinn guðmundsson og Ólafur Guðmundsson sem gaf steypuna og lánað gröfu.

Gamlar myndir (42).jpg

Mynd frá fyrstu skotvopnasýningu félagsins

5) Skotgrund - Original.jpg

Merki félagsins hannaði Helga Stolzenvald.

08.05.2006 - Standsetning húss (5).jpg

Unnið við endurbætur á húsinu.

 

Frá vinstri:

Freyr Jónsson, Bjarni Sigurbjörnsson , Sigurbjörn Bjarnason.

20.05.2008 - Vélarskipti (16).jpg

Þorsteinn B. Sveinsson kemur nýju ljósavélinni fyrir. 

04.10.2012 - Framkvæmdir við riffilborð

Þorsteinn Björgvinsson og Steinar M. Ragnarsson setja jupp fleiri riffilborð.

19.10.2012 - Framkvæmdir við riffilborð

Þorsteinn Björgvinsson setur upp færanleg skotmörk.

Hrafnkelsstaðaland (136850) - Grundarfja

Æfingasvæðið var lengt um 550 metra.

25.05.2017 - Aðalfundur (21).jpg

Heiðursfélagar: Birgir, Unnsteinn og Karl.

22.02.2017 - Stjórnarfundur - Skóflustun

Fyrsta skóflustungan

20.05.2017 - Skothús - Sökkull - 2 (22).

Fyrsta steypan

29.03.2018 - Skothúsið - fylling í sökku

Sökkullinn fylltur og lagnir lagðar

dagur 4 (44).jpg

Félagsmenn við smíðavinnu. Húsið reis á nokkrum dögum.

20200523_100427.jpg

Nýjar leirdúfukastvélar teknar í notkun.

Gamlar myndir (17).jpg

Mynd frá Undirbúningsfundinum í kaffistofu Sæfangs HF.

Fremst eru fulltrúar Skotvís þeir Bragi Melax, Sverrir Scheving og Hallgrímur Marinósson.

bottom of page