top of page
Search

Svakalegt framkvæmdasumar á æfingasvæðinu

Æfingasvæðið hefur fengið mikla andlitslyftingu í sumar. Félagsmenn hafa margir hverjir eytt stórum hluta af sumarfríinu sínu í framkvæmdir á skotsvæðinu og sumir öllu fríinu sínu. Það hefur í raun verið svo mikið að gera að við höfum ekki náð að fylgja fréttaflutningi eftir hér á heimasíðu félagsins, en hér er gróf samantekt á framkvæmdum sumarsins.


Í lok júní fengum við að gjöf listaverkið "Fossbúinn" sem er listaverk úr grjóti. Því var komið fyrir fyrir framan skothúsið og um leið var farið í jarðvegsfyllingu í kringum skothúsið. Á sama tíma var byrjað að smíða loftagrind í loftið á skothúsinu. Strax í kjölfarið var farið í að leggja raflagnir í loftið og ganga frá rafmagnstenglum innanhúss.


Þann 1. júlí var byrjað að undirbúa steypuframkvæmdir við skothúsið og slegið var upp fyrir tröppum, veggjum og sökklum fyrir nýja félagsheimilinu, en það er m.a. liður í því að gera gott aðgengi fyrir hreyfihamlaða að skotæfingasvæðinu.


Þann 6. júlí var hafist handa við að hækka- og breikka veginn upp að skothúsinu og næstu daga var miklu magni af efni var keyrt í lóðina umhverfis nýja skothúsið. Þá var einnig fengið fínt efni til þess að slétta og snyrta í kringum bílastæðið.


Þann 10. júlí var búið að setja upp hlið við æfingasvæðið og afmarka riffilbrautina með sjávargróti sem var fengið frá Rifi. Unnir voru langir dagar frá morgni til kvölds við að snyrta svæðið.


Þann 20. júlí var fyrsta steypa. Þá voru steyptir 6 rúmmetrar af steypu og við steyptum stétt fyrir framan húsið, sökkla undir nýja félagsheimilið og vegg á PRS svæðinu.


Dagana 23. og 24. julí var allt æfingasvæðið grafið upp og settar voru niður vatnslagnir, frárennslislagnir og rafmagnslagnir. Þegar lagnavinnunni var lokið var æfingasvæðið allt slétt og lagað aftur og gert snyrtilegt.


Áfram voru unnir langir dagar við niðurrif á steypumótum og uppslátt á nýjum mótum. Þess á milli var unnið innandyra í skothúsinu við frágang á veggjum og loftum.


Þann 2. ágúst var svo komið að steypu nr. 2. Við óttuðumst að við myndum ekki fá mannskap til að taka á móti steypunni en þetta var föstudagur um verslunarmannahelgi. Neinei, 19 manns mættu til að hjálpa til. Steyptir voru 23 rúmmetrar sem fóru í tröppur, gangstétt, vegg, svæði fyrir æfingar lögreglu og svæði fyrir keppni í PRS.


Aftur þurfti að rífa utan af og hreinsa steypumót. Strax var farið í að slá upp nýjum mótum og samhliða því var byrjað að klæða loftið í skothúsinu og sett var upp eldhúsinnrétting í skothúsinu. Þann 6. ágúst var vegurinn svo heflaður því það var að styttast í Íslandsmeistaramótið í PRS.


Þann 7. ágúst var síðasta steypan steypt. Þá voru steyptir 12 rúmmetrar af gangstéttum á nokkrum stöðum umhverfis skothúsið og farið var í lagfæringu á steyptu veggjunum sem steyptir voru síðasta haust.


Svo var farið í alsherjar hreingerningu og tiltekt á svæðinu þar sem rusli var hent og byggingarefni var fjarægt. Þá var hægt að taka á móti gestum en Íslandsmeistaramótið í PRS fór fram helgina 10.-.11. ágúst. Æfingasvæðið er nú að verða hið glæsilegasta, en við erum þó hvergi nærri hætt og munum halda framkvæmdum áfram inn í haustið.



12 views0 comments

Comments


bottom of page