Nýlega undirritaði Ríkislögreglustjóri samning við Skotvís um að Skotvís haldi utan um skotvopnanámskeið, en námskeiðin höfðu legið niðri um nokkurt skeið eða frá því að Umhverfisstofnun sagði upp samningnum við Ríkislögreglustjóra um síðustu áramót. Námskeiðin verða núna kennd í vefskóla og allt námsefni er að finna á netinu ásamt æfingaprófum. Skotfélög víða um landið munu svo annast verklega kennslu í samstarfi við Skotvís.
Skotfélag Snæfellsness hefur skipulagt skotvopnanámskeið í áratugi, fyrst í samtstarfi við lögregluembættið á Vesturlandi og síðar í samstarfi við Umhverfisstofnun. Okkur rann því blóðið til skyldunnar þegar Skotvís hafði samband við okkur og óskaði eftir samstarfi með framkvæmd verklegrar kennslu. Okkur finnst það vera samfélagsleg ábyrgð okkar að sinna okkar sveitungum svo þeir þurfi ekki að sækja námskeiðin langa leið og Skotfélag Snæfellsness mun því bjóða upp á verklega þjálfun fyrir einstaklinga sem hyggjast ná sér í skotvopnaréttindi. Fyrstu nemendur þessa árs sóttu námskeið einmitt í dag og stóðust það með glæsibrag. Við hlökkum til að hitta nýtt fólk og hjálpa þeim að stíga sín fyrstu skref á skotvellinum. Hægt er að lesa meira um skotvopnanámskeiðin hér.

Hér má sjá Unnstein Guðmundsson fylgjast með nemanda, en Unnsteinn Guðmundsson, Birgir Guðmundsson og Samúel Pétur Birgisson sáu um kennsluna í dag.
Comments