top of page
Search

Heiða Lára og Pétur kepptu á heimsmeistaramótinu í H.C. í Valencia á Spáni

Writer's picture: skotgrundmotskotgrundmot

Þann 4. september síðastliðinn héldu Aðalheiður Lára og Pétur Már til Valencia á Spáni til að taka þátt í 5. heimsmeistaramóti WBSF í Hunter Class með cal.22 rifflum. Þann 8. september var völlurinn opnaður fyrir keppendum til að koma og skrá sig inn, skoða aðstæður, setja riffla í geymslu og einnig mátti skilja búnað eftir á skotsvæðinu.

Við innskráningu þurfti að fylla út formlegt skjal þar sem fram kom: númer, nafn, og land keppanda, framleiðandi riffils og raðnúmer. Riffillinn var vigtaður og mældur, það var skráð á skjalið og yfirdómari samþykkti og keppandi kvittaði fyrir.


Þau fengu svo A4 blað í plastvasa sem þau þurftu að vera með sýnilegt á bakinu þegar þau voru að keppa. Einnig fengu þau auðkennisspjald þar sem tilgreint var á hvaða bekk og klukkan hvað þau ættu að skjóta. Með þessu fylgdi líka skráning með QR kóða inn á síðu sem Skotsamband Spánar notar til að birta úrslit. Keppendur gátu þá farið inn á sína síðu og fengu þar uppfærða stöðu um leið og búið var að yfirfara skotblöðin og einnig voru settar inn myndir af blöðum viðkomandi þar inn. Uppfært skor birtist líka á nokkrum stórum skjám, sem voru staðsettir á skotsvæðinu, t.d. þar sem hreinsiaðstaðan var og einnig í kaffiteríunni.


Aðstaðan til að hreinsa rifflana var í 100m aðstöðunni, þar fékk hvert land og lið úthlutað sínu borði þar sem hægt var að yfirfara og hreinsa rifflana. Einnig voru skotblöðin hengd þar upp á veggi til sýnis.


Við innskráningu fengu keppendur góðan gjafapoka með ýmsum hlutum sem gætu komið sér vel.  Fyrsti dagur mótsins byrjaði ekki vel, en keppandi frá Ítalíu varð fyrir því óhappi að ganga á aðra yfirskotsvörnina og við það féll hann og fótbrotnaði. Það tók svo bráðaliða hátt í klukkutíma að mæta á svæðið, þrátt fyrir að svæðið væri við enda á þéttri íbúðabyggð. En þessi óheppni Ítali þurfti að fara í aðgerð og því flaug hann heim daginn eftir.


Öryggisfundur var haldinn að loknum fyrri æfingardegi, þar var farið yfir þær öryggis- og vallarreglur sem mótshaldarar lögðu áherslur á. Hver keppandi þurfti að tæma borðið sitt að lokinni keppni, alveg óháð því hvort næsti keppandi notaði sama búnað eða ekki, en þetta var gert til þess að allir þyftu að stilla upp fyrir sig og tryggja að allir fengu jafn langan tíma til að koma sér fyrir. Ef keppandi var ekki tilbúinn þegar styttist í ræsingu, mátti aðeins lengja tímann um 3 mínútur, eftir það yrði keppnin ræst hvort sem viðkomandi væri tilbúinn eða ekki. Vindflögg mátti aðeins færa til á þeim tíma sem gefinn var upp til þess, en ef vindflagg féll niður eða það var fyrir, mátti biðja um leyfi á milli riðla til að rétta flaggið við eða fella niður vindflagg, en ekki færa það til á neinn hátt.


Að loknum öryggisfundinum, var fulltrúafundurinn haldinn. Heiða Lára var fulltrúi STÍ á þeim fundi þar sem farið yfir næstu mót, en eftir 2 ár er stefnan sett á Ítalíu. Völlurinn sem á að nota þar er í byggingu og einhver leyfi voru ekki komin í hús þegar fundurinn var, en ætti að vera komið núna í enda október þessa árs.


Á hádegi seinni æfingardags var boðið til opnunarhádegisverðar. Hann var haldinn í kaffiteríu vallarins og var ljómandi fínn. Allir fengu þá afhentan þátttöku pening frá Skotsambandi Spánar með merki mótsins.


Þegar fyrri keppnisdagur byrjaði var völlurinn döggvotur og hitinn að hækka. Þannig að þegar fyrsti riðill var ræstur um kl. 9:00 var lítill vindur og því töluverð tíbrá. Heiða Lára lenti því í þó nokkru veseni vegna þess. En daginn eftir mætti hún með fínu viftuna sem var í gjafapokanum og beitti henni þegar tíbráinn mætti. Sömu aðstæður komu upp alla dagana eftir hádegi, þá bætti nokkuð í vind og var hann nokkuð erfiður viðureignar. Það var líka ekki sama hvar á vellinum þú varst, því á bak við helming vallarins var byggingin hærri og því meira skjól.


Ræsing var ekki alltaf á réttum tíma, en þó náðist að halda ágætu tímaplani og þurfti ekki að bíða lengi eftir niðurstöðum úr hverjum riðli. Eftir fyrri keppnisdaginn var Pétur Már í 47. sæti með 740 stig og 29x, er það nýtt Íslandsmet þar sem keppnistíminn var styttur úr 30 mín í 20 mínútur á síðasta móti. Er þetta því fyrsta heimsmeistaramótið sem haldið er með nýja keppnistímanum. Heiða Lára var í  83. sæti með 728 stig og 30x, en það var reyndar líka nýtt Íslandsmet, þangað til að Pétur var búinn að skjóta.


Eftir seinni daginn var Heiða Lára með 734 stig og 34x og samtals 1462 stig og 64x í 79. sæti.

Pétur var með 721 stig og 30x og samtals 1461 stig og 61x í 80. sæti. Heilt yfir þá hefðu þau viljað skora betur, en fengum þó mikla reynslu og æfingu í því að taka þátt í stórmóti. Einnig mynduðust tengsl við aðra keppendur sem deila reynslu og þekkingu sem er alveg ómetanlegt. 


Á meðan á mótinu stóð, tókum þau upp á arma sína keppendur Indlans sem hafa ekki alþjóðlegt ökuskírteini og gátu því ekki leigt sér bíl í Evrópu. Þau voru á sama hóteli og Heiða og Pétur og það var því sjálfsagt að ferja þau á milli. Einnig lánuðu Heiða og Pétur þeim restið sitt og púða þar sem þau gátu ekki flutt neinn búnað með sér frá Indlandi. Þau notuðu riffil sem keppandi frá Finnlandi skaffaði þeim. Það þurfti reyndar að fá að færa annað þeirra úr riðli 2 í riðil 4 til að þetta gengi allt upp, en eftir smá útreikninga hjá mótsstjórn þá var það ekkert mál.


Hátíðarkvöldverðurinn var haldin á ljómandi fallegu viðburðarsvæði, þar fengum þau gefins minnjagrip sem var leirflís með merki mótsins. Var þetta hinn fínasti kvöldverður þar sem verðlaun voru veitt og einnig var happdrætti þar sem heppnir keppendur fengu gjafir frá R.S Benchrest Portúgal. Því miður var okkar fólk ekki dregið út. Þar með lauk mótinu formlega. Þetta var gott mót, vel skipulagt og gekk vel.


Því má bæta við að Heiða og Pétur dreifðu límmiðum með merki Skotfélags Snæfellsness sem vakti mikla lukku, sérstaklega þegar þau bentum fólki á að "gúggla" félagið okkar og þá finndu keppendur heimasíðuna okkar og Facebook síðu félagsins. Flestir voru dolfallnir yfir landslaginu, víðáttunni og lengd brautarinnar, þar sem mjög fáir skotvellir í Evrópu eru með lengri brautir en 50 m eða 100m.


Heiða Lára og Pétur Már.


39 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


HAFÐU SAMBAND

Skotgrund Skotfélag Snæfellsness

Fossahlíð 3

350 Grundarfirði

​​

Kt. 670490-1499

Banki: 0191-26-802

skotgrund@gmail.com

  • Facebook
  • Instagram
  • Black Facebook Icon
  • Black Instagram Icon

© 2020 Skotfélag Snæfellsness

bottom of page