top of page
Search

Íslandsmeistaramótið í PRS - Kolgrafafirði

Helgina 10. og 11. ágúst var eitt stærsta PRS mót sem haldið hefur verið á Íslandi haldið á æfingasvæðinu okkar. Mótið var liður í Íslandsmeistaramótaröðinni og bar mótið nafnið "Fossbuinn Challenge PRS Match", en þar er verið að vísa í steininn "Fossbúinn" sem skotfélagið fékk að gjöf frá "Liston"(Lúðvík Karlsson) og stendur fyrir framan nýja riffilhúsið og horfir upp í Hrafnafoss. Mótið heppnaðist með eindæmum vel og stefnt er að því að hafa það árlegan viðburð.


Skotnar voru 14 þrautir og 22 keppendur voru skráðir til leiks, en alls var um 3200 skotum skotið þessa helgi. Skotið var á ýmis færi og var stysta færið 258 metrar og lengsta færið var 776 metrar. Þrautirnar voru af ýmsum toga og var leitast eftir því að reyna á hinar ýmsu hliðar skyttunar, en sumar þrautir voru með rúman tíma svo að flestir gætu náð að klára og svo voru aðrar með tímapressu og þar reyndi mikið á skipulag skyttunar og færni.

Það voru þeir Arnar Geir Diego, Kári Hilmarsson og Gunnar Ásgeirsson sem sáu um skipulag á mótinu og skrifuðu þeir einnig allar þrautirnar. Við þökkum þeim fyrir flott mót og góðan undirbúning, en svona stórt mót er margar vikur í undirbúningi.


Mikið var um veglega vinninga á mótinu og annað eins verðlaunaborð hefur ekki sést á skotmóti á Íslandi. Dregið var úr nöfnum þátttakenda og sá aðili sem var dregin út hverju sinni fékk að ganga upp að verðlaunaborðinu og velja sér þann vinning sem viðkomandi leist best á, en fjöldi styrktaraðila gáfu vinninga í mótið. Keppendur fengu allir vinning nema mótshaldararnir sjálfir sem ákváðu sjálfir að vera ekki með í pottinum.


Við fengum tvo góða gesti til okkar frá Noregi til að keppa með okkur en það voru hjónin Rúnar Jónsson og Þórunn Jónsson en þau eru á meðal fremstu PRS skytta í heimi. Keppt var í tveimur flokkum á mótinu, verksmiðjuflokki og opnum flokki.


Í verksmiðjuflokki var einn keppandi en var það hún Dagný Rut Kjartansdóttir og stóð hún því uppi sem sigurvegari í verksmiðjuflokki. Í opnum flokki voru 21 keppendur og hér má sjá efstu fimm sætin. Önnur úrslit má finna á fecebook síðu PRS Ísland.

1.Sæti: Rúnar Jónnson – Noregi með 130 hitt af 143 mögulegum

2.Sæti: Einar Pétursson – Íslandi með 119 hitt 

3.Sæti: Þórunn Jónsson – Noregi með 116 hitt 

4.Sæti: Stefán Eggert Jónsson – Íslandi með 113 hitt

5.Sæti: Bjarni Valsson – Íslandi með með 103 hitt


Þess má geta að þeir Einar Pétursson og Stefán Eggert Jónsson sem voru jafnir eftir fyrri daginn, eru í harðri baráttu um íslandmeistaratitilinn en þar er Stefán með 300 stig og Einar með 292 stig og aðeins eitt mót eftir í íslandsmeistaramótaröðinni.


39 views0 comments

Comments


bottom of page